Heilsugæsla , ætti hún ekki að vera fyrir alla?

21.apríl 2017

Heilsugæsla er svo ótrúlega mikilvæg þegar maður þarf á henni að halda.

Að lesa um hvernig komið er fyrir spítalanum á Íslandi og hvernig þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði hefur rokið upp úr öllu valdi í tíð hinnar dásamlegu nýju ríkisstjórnar er hálf ömurlegt.

Ég þakka fyrir að hafa haft mig burt frá Íslandi á réttum tíma og slepp því við að upplifa á eigin skinni hvernig verið er að éta innan úr kerfinu, og bjartur litli fer þar ekki síðastur.

Í október á síðasta ári var ég svo óheppin að brjóta á mér öxlina og handlegg. Síðan þá hef ég verið undir læknishendi og allt gert sem hægt er til þess að koma mér aftur í gang.

Ég þurfti að fara í tvo uppskurði út af þessu fjárans falli og auðvitað tekur tíma að hressa mig við.

Frá upphafi hef ég notið bestu þjónustu sem hægt er að hugsa sér. Ég bý í fátæku landi en hér er hugsað vel um veika fólkið. Nú hef ég verið í sjúkraþjálfun í marga mánuði og er að ná mér smátt og smátt.

Í gær fór ég í heimsókn til þjálfarans míns í Covoes og hitti þar starfsfólk og sjúklinga og varð fagnaðarfundur. Það er nefnilega þannig hér að á svona stofnunum myndast sterk tengsl. Þó ég hafi flutt frá spítalanum í Covoes yfir í Coimbra haldast tengslin og ný myndast í vatnsmeðferðinni á spítalanum í Coimbra.

Ég fór í viðtal hjá lækninum í gær og hún ætlar að láta mig hafa 10 skipti í viðbót sem er óvenjulegt og afar rausnarlegt. Ég er þakklát fyrir það og mér verður hugsað til læknisins á Íslandi sem sagði, þegar ég bað hann um að fá tilvísun í sjúkraþjálfun, að aldrei hefði hann farið í sjúkraþjálfun og ég hefði ekkert með það að gera. Þetta var fyrir um 20 árum og ekki veit ég hvort þetta fífl er enn að vinna, en þykir það þó trúlegt. Hann sagði mér líka að ég væri ímyndunarveik þegar ég hafði verið með opið sár í 2 ár og eftir að ég leitaði til annars læknis kom í ljós að ég var með krabbamein. Þetta var fyrir mörgum árum en ég velti því enn og aftur fyrir mér hvernig ástandið er á landinu í dag. Hefur það versnað?

Líklega er það enn verra og þeir sem þurfa að draga fram lífið á lágmarkslaunum eða bótum frá Almannatryggingakerfinu hafa ekki efni á því að leita læknis. Getur þetta verið? Já, ég held að það sé meira en líklegt. Það hljómar ekki vel að í landi sem allt veður í peningum skuli vera til hópur af fólki sem yfirstéttin vonar að leggi upp laupana og hægt sé að troða ofan í moldina sem allra fyrst.

Þeir sem sitja við stjórnvölinn hugsa um eigin hag og maka krókinn en hvað með þá sem eru í stjórnarandstöðu? Gera þeir eitthvað til þess að mótmæla því hvernig farið er með dágóðan hluta íbúa landsins? Eru þeir kannski svo sælir af launum sínum að þeir leggja ekki í að rífa sig þannig að gagn sé af?

Mér verður oft hugsað til þeirra sem eru sjúkir á Íslandi og ég prísa mig sæla að búa í landi þar sem hlúð er að mér þegar ég veikist og þarf á hjálp að halda.

Kunna menn eins og heilbrigðisráðherra og velferðaráðherra kannski ekki að skammast sín?

Þarf fólk sem sest á alþingi Íslendinga að vera samviskulaust og gefa skít í þá sem þurfa á hjálp að halda?

Mér finnst ótrúlega aumingjalegt af stjórnarandstöðu að sitja hjá við atkvæðagreiðslu mikilvægra mála.

Mér finnst líka aumingjalegt að láta bjóða sér þau vinnubrögð að ekki sé hægt að lesa yfir lög áður en þau eru samþykkt.

Það er ágætt að skrifa á Facebook að vinnubrögð hafi komið á óvart. Hah! Á hinu háa alþingi á ekki að líðast að vera með innantómt málæði sem skiptir engu máli og er einungis til þess að vekja athygli ræðumanns á hversu dásamlega hann eða hún hljómar í þingsal.

Fólkið í landinu, hinn almenni kjósandi á heimtingu á því að þingheimur vinni fyrir launum sínum. Þetta fólk er á kaupi hjá þessu þreytandi fólki sem kallast landslýður og er ekki í flokki prinsa og kökubakara, hvað þá gulra loddara sem láta sig hverfa svo ekki sé verið að spyrja óþægilegra spurninga.

Skömmin er mikil.

Skömmin er ekki almennings.

Skömmin er þeirra sem þykjast vera að vinna fyrir fólkið í landinu, en virðist allt vera með sama rassinn undir sér og skarar að eigin köku.

Ég hef ótrúlega skömm á vinnubrögðum þingheims og geri ekkert sem mér þykir eins leiðinlegt og að hlusta á þvaðrið í fólkinu sem situr þar.

Auðvitað er voðalegt að segja þetta en mér líður bara svona þegar ég hugsa um hve gæfusöm ég er að hafa ákveðið fyrir langa löngu að verða ekki gömul á Íslandi.

Hulda Björnsdóttir


Bloggfærslur 21. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband