Sumardagurinn fyrsti er í dag á Íslandi

20.apríl 2017

Ég verð að óska þeim sem lesa bloggin mín gleðilegs sumars. Mér finnst það alveg nauðsynlegt og ég vona að sumarið verði íslendingum gott. Ekki of kalt og ekki of mikið af umhleypingum bæði í veðri og stjórnmálum.

Þegar ég var á leiðinni í sjúkraþjálfun í morgun hugsaði ég um hvernig sumardagurinn fyrsti var þegar ég var barn og hvernig ég steig fyrstu sporin mín opinberlega á hátíð sumardagsins fyrsta.

Getur það verið að veðrið hafi verið betra í gamla daga?

Einhvern vegin man ég ekki eftir þessum degi mjög köldum en rigning var oftar en ekki.

Ég varð svolítið angurvær yfir morgun hugleiðingum mínum og ákvað að skrifa um þær en ekki hér. Þær hugleiðingar eru fyrir mig og engan annan.

Vel getur verið að einn góðan veðurdag taki ég mér skáldaleyfi og segi frá ævintýrum sem gerðu þennan dag öðruvísi og af hverju hann lifir í minningunni.

Hér í nýja heimalandinu mínu er ekki haldið upp á fyrsta dag sumars. Við höldum upp á alls konar daga heilagra manna en sumarkoman skiptir okkur ekki öllu máli. Það er hvort sem er sumar stundum og stundum ekki og fer ekkert eftir því hvaða mánuður er. Vinkona mín og fjölskylda hennar horfðu upp á elda allt í kringum heimili þeirra í mars fyrir 5 árum. Hugrakkir slökkviliðsmenn börðust við að bjarga húsinu og það tókst. Þetta var í 35 stiga hita og um hávetur. Nokkrum dögum seinna var allt orðið ískalt aftur en eldar höfðu logað glatt í þorpinu mínu og nágrenni en núna er gróðurinn að komast upp úr hörmungunum og áður en varir verður allt orðið skógi vaxið á ný.

Í gær var gleði dagur hjá mér og þegar ég labbaði í átt að spítalanum hitti ég uppáhalds lækninn minn hana Dr. Margaridu. Það var góð tilfinning að faðma þessa ungu fallegu smávöxnu konu og bjóða henni góðan dag. Í morgun hittumst við svo aftur, ég á leið á spítalann og hún á leið eitthvað. Heimurinn er stundum svo ógnar smár.

Þegar ég fer yfir götuna á þessari leið þori ég aldrei að leggja af stað yfir, fyrr en bílarnir eru alveg stopp, það skýtur upp í kollinum á mér á hverjum degi hversu auðvelt er að renna bíl inn í mannþröngina og drepa þá sem fyrir verða, eða alla vega slasa þá.

Er það ekki voðalegt að hugsunin um hryðjuverka ósómann sem tröllríður allri Evrópu þessa dagana skuli jafnvel hafa áhrif í hinu pínulitla Portúgal?

Á meðan Trump trumpast um allar trissur og getur ekki einu sinni haldið utan um starfsfólk sitt og séð til þess að allir tali einni tungu, og hann heldur að með því að skjóta svolítið á einhverja þá leysi hann hryðjuverkaógnina, þá blómstra þeir sem hafa vilja til þess að drepa saklausa vegfarendur í nafni einhvers sem er kannski alls ekki mesta ógn veraldarinnar.

Nokkuð er farið að bera á ferðamönnum hér í landinu og stóru húsin á hjólum skekjast um allt. Ofboðslega leiðist mér þetta ferðafólk. Það er miklu meiri friður þegar það er ekki að andskotast um allar trissur.

Auðvitað held ég mig bara heima og flækist ekkert á yfirfulla staði þar sem rauðir túristar spígspora á bolum og sandölum, jafnvel þó vindur blási og við heimamenn séum vel búin bæði til fótanna og í góðum úlpum.

Ég vona að íslendingar fái gott sumar og útlendingarnir kúki ekki út um alla staura. Þetta er allt miklu auðveldar hérna hjá mér, kallarnir vippa sér bara út úr bílnum og míga í skjóli eins og þeir haldi að umferðin sé bara í eina átt. Nú ef þeir þurfa að tosa niður um sig brækurnar er ekki langt að fara á bak við næsta tré, en samt er umferð í báðar áttir. Vitið nær ekki lengra og ég er svo sem ekkert að láta þetta trufla mig.

Það truflar mig meira að sjá unga konu standa við veginn og bíða eftir viðskiptum. Í morgun var ein ný og sú var ekki með áhyggjur af útstæðum maga og keppum hér og þar. Ég er svo forvitin og langar ekkert smá til þess að komast að því hverjir kaupa þjónustuna, en svoddan aumingi samt að ég þori ekki að spyrja og yrði líklega rukkuð fyrir svarið.

Gleðilegt sumar allir íslendingar. Njótið sólarinnar og góða veðursins þegar það skreppur í heimsókn. Svo er auðvitað hægt að bregða sér til útlanda og baða sig þar. Munið bara að hafa með ykkur sólarvörn. Rauðir ferðamenn eru svo ægilega hallærislegir.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 20. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband