Sólin er farin ! Hvert fór hún ?

18.apríl 2017

Ég nenni ekki að rífa mig í dag.

Er búin að liggja í rúminu í 10 daga með kvef og hósta. Sólin kom og mér varð kalt. Algengur skolli hér í landi. Auðvitað á sólin ekkert að vera að láta svona yfir hávorið. Hún á bara að koma til þess að hita upp en ekki að hamast svo að hitinn fari upp í sólbaðsveður.

Sumarið er í júní og júlí hér í landi, það vita allir heimamenn og ég líka.

Ég fór út í dag, í fyrsta sinn og keyrði til Coimbra.

Á leiðinni eru margir vínakrar. Það eru svona svæði þar sem ræktuð eru vínber sem verða svo að brennivíni sem fer í mjólkurbúðir þegar það er tilbúið.

Jurtirnar sem berin vaxa á eru einhver þau allra ófríðustu tré sem ég hef séð. Kræklóttar eins og gamall kall á sokkum sem hefur týnt öllum fötunum. Ekkert fallegt við svoleiðis sýn.

Ég ætlaði að vera búin að taka mynd af kræklunum, því þær eru um allt á leiðinni til Condeixa. Í dag var allt orðið öðruvísi. Laufin komin og prýddu kræklurnar svo myndirnar verða að bíða þar til næsta ár.

Eftir nokkra mánuði er svo haldin hátíð hér og þar og berin tínd og  fólk kemur alls staðar að með klippur og hamast við tínsluna. Á eftir er svo stiginn dans í tunnunum og berin kramin. Ekki skil ég hvernig fólk getur drukkið þennan viðbjóð með táfýlu og öllu. Hrikalegt, svo ég segi ekki meira.

Í dag voru bara 2 gleðigjafa stúlkur á leiðinni. Önnur var í bíl en hin stóð við vegkantinn. Þetta er svona um allt. Pimparnir eru oftar en ekki eiginmennirnir og keyra þeir konurnar í vinnuna og sækja þær að kvöldi.

Það voru alltaf 5 eða 6 á þessu svæði en sumar hafa verið drepnar og aðrar ekki komið í staðinn. Svo fer þetta líka eftir því hvernig viðrar. Það nennir enginn að fá sér drátt úti undir beru lofti í rigningu og borga fyrir, eða það held ég.

Þessir gleðigjafar eru út um allt Portúgal meðfram þjóðvegunum. Ég hef grun um að viðskiptavinirnir séu trukka bílstjórarnir, þó ég ég viti það ekki.  Enn hef ég ekki gerst svo djörf að stoppa og tala við stelpurnar en þetta gæti alveg skollið á fyrr en varir ef vel liggur á mér. Ég gæti þóst vera að skrifa bók eða eitthvað og langaði að kynna mér portúgalska menningu.

Ég sá á netinu að fólk er að býsnast yfir kínverskum ökumönnum á Íslandi og ýmsar fullyrðingar um hvernig ökukennsla er í landinu. Sumir segja að fólkið læri í hermum og guð veit hvað. Ég hlæ auðvitað þegar ég les svona fullyrðingar. Búin að keyra í mörg ár í Kína og þekki nokkuð vel hvernig ökuskírteina mál er þar í landi, bæði fyrir heimamenn og útlendinga. Ég ætla ekkert að fara nánar út í það mál en ég veit að í sumum löndum fá Kínverjar ekki að leigja bíla. Það ætti kannski að taka upp þann sið á Íslandi, eða hvað?

Stundum er svo átakanlega hjákátlegt hvað fólk veit um aðrar þjóðir. Auðvitað er þetta allt á netinu ! Hah !

Ferðamenn frá Íslandi hafa verið í Lissabon þessa páska og farið til Setubal og Sintra og eitthvað fleira. Lissabon svo dásamleg borg, segir hópurinn. Svo ég er bara glöð yfir því að landinn getur skemmt sér í borginni en mikið voðalega finnst mér sorglegt að ekki sé farið með fólkið á alla fallegu staðina sem eru allt í kring um borgina og meðfram ströndinni og eru ekki stútfullir af ferðafólki.

Nei, annars, ég er bara hress með þetta fyrirkomulag. Það er svo dásamlegt fyrir okkur heimafólkið að þurfa ekki að rölta innan um alla hálf nöktu túristana sem eru einhverra hluta vegna svo ótrúlega rauðir á litinn. Líklega hafa þeir ekki lesið viðvörun um hættu vegna útfjólublárra geisla þessa helgi, jafnvel þó ég hafi sett viðvörun heilbrigðisyfirvalda, reyndar á ensku, á Facebook síðuna mína.

Ferðamanna brjálæðið er hafið. 600 umferðaóhöpp um páskana. 5 dauðsföll á vegum úti og 4 fórust með flugvél og einn varð fyrir vélinni niðri á landi.

Bara venjulegt vor og sólarglæta annað slagið hér í heimalandi mínu.

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 18. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband