Gleðilega páska

16.apríl 2017

Góðan dag og gleðilega páska.

Í morgun las ég fallega grein eftir Steinunni Sigurðar þar sem hún fjallar um sítrónubúðing mömmu sinnar.

Steinunn segir að hátíðisdagar móður hennar hafi oftast verið í eldhúsinu þar sem hún bjó til kræsingar fyrir fjölskylduna.

Ég gæti trúað að margir eigi svona minningar og eldamennska móðurinnar hafa þótt nokkuð sjálfsögð.  Nú á tímum hefur þetta aðeins breyst og karlmennirnir á heimilinu farnir að taka þátt í matargerð og öðrum heimilisstörfum. Um breytinguna er ekkert nema gott eitt að segja.

Margar mæður, og ef til vill foreldrar, kvíða svona hátíðisdögum. Kvíðinn fer að gera vart við sig nokkrum vikum fyrir jól eða páska. Þeir sem hlakka ekki til stórhátíða eru oftast fátækir. Þetta fólk hefur áhyggjur af því að geta ekki veitt börnum sínum það sama og hinir, þeir efnuðu, geta.

Jólagjafirnar eru stærsti höfuðverkurinn. Svo koma páskaeggin. Það er ekki hægt að kaupa páskaegg fyrir afkvæmin, þó stundum sé hægt að fá lítil egg með afslætti rétt áður en hátíðin rennur í hlað.

Ef 9% barna á Íslandi búa við fátækt er hætt við að þessi hópur og fjölskyldur þeirra hafi ekki gert sér dagamun um þessa páska.

Eldri borgarar líða margir hverjir fyrir að geta ekki rétt ömmu- og afabörnum fallegt lítið egg og séð gleðibrosið breiðast yfir andlitin.

Fátækt er grimm. Hún er ljót. Hún drepur fólk andlega og stundum líkamlega. Andlegir sjúkdómar gera fólk að öryrkjum ekki síður en líkamlegir. Láglaunafólk andar léttar þegar hátíðisdagar eru liðnir og hversdagurinn tekur við.

Mörg tárin falla í laumi og reynt er að láta börnin ekki sjá hvað foreldrið tekur það nærri sér að geta ekki veitt því það sem þarf til þess að hægt sé að kalla líf þeirra sómasamlegt.

Eldri borgarinn grætur ofan í koddann sinn. Enginn sér tár hans. Hann hefur lært í gegnum lífið að betra er að bera harm sinn í hljóði og láta ekki mikið á því bera hvað lífið er sársaukafullt og sárin djúp.

Allir sem lifa verða gamlir. Sumir deyja ungir en nú er að koma upp vandamál sem ekki er hægt að leysa. Fólk eldist og verður of gamalt á Íslandi. Ráðamenn segja okkur að nú þurfi að herða sultarólina.

Sultarólin er svo strekkt að eldri borgara geta varla andað. Hvernig eiga þeir að herða hana frekar? Ó, auðvitað, það er bara partur af þessum hópi sem er með svona ólar um sig miðja. Hinir eru með axlabönd og ekkert mál að lengja í þeim og nægir peningar til fyrir axlabanda hópinn.

Nú er að vaxa upp nýr axlabandahópur á hinu háa alþingi íslendinga. Þessi hópur er ungt fólk sem ætlar sér að breyta lögum og reglum og leiðin til þess  er að brjóta þau lög sem fyrir eru og hafa gaman af. Það þykir líka flott að hæðast að trú þeirra sem eru kristnir og þykir vænt um hefðirnar sem eru í kringum jól og páska.

Brennivín í búðir, veipur í andlitið, kúl að vera alþingismaður, skammast í Bjarna Ben úr ræðustól hins háa alþingis og mæla með því að vera þingmaður. Spillinguna burt og brjóta gildandi lög, bölva og ragna, gefa skít í þá sem vilja halda upp á daga sem teljast hátíðisdagar í kristinni trú. það er leiðin til þess að breyta litlu eyjunni, virðist mér vera "mottó" þessa nýja hóps sem er að stýra landinu.

Ég hrökk upp með andfælum þegar ég fann hugsunina um hvað það væri gott að ráðuneyti, en ekki alþingi, settu saman þau lög sem eiga að halda þjóðfélaginu saman.

Það er eitthvað fáránlega einkennilegt við svona hugsanir.

Minningar Steinunnar Sigurðar um sítrónubúðing mömmu hennar ættu að vera skyldulesning allra þeirra sem hafa fengið sæti á hinu háa alþingi og þiggja laun sem hægt er að mæla með.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


Bloggfærslur 16. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband