Hreint ótrúlegt mat alþingismanna á hvað skiptir máli !

1.apríl 2017

Í dag er 1. apríl og fólk látið hlaupa. Munið að fara þarf yfir 3 þröskulda til þess að eitthvað sé að marka. Það er ekki nóg að skrifa eitthvað sniðugt, maður hleypur ekki apríl við það eitt að sitja með símann eða við tölvuna og lesa skondnar færslur.

Þetta er ekki apríl gabb sem ég er að hugleiða í dag.

Blákaldur veruleiki hins veruleikafirrta alþingis nútímans, eða að minnsta kosti ársins 2017, þar sem reynslulítið fólk situr og tekur ákvarðanir sem geta skipt máli upp á líf og dauða.

Nú er einn flokkurinn alveg að ærast af gleði vegna þess að fram er að koma frumvarp um "skýja sígarettur" fyrir þá sem ekki hafa dug í sér til þess að hætta reykingunum og afsaka sig með ýmsu móti. Það er svo erfitt! Ég fitna þegar ég hætti að reykja. Og svo framvegis og framvegis og framvegis.

Á sama tíma og neyðarkall kemur frá ungum hjónum þar sem verið er að rústa lífi þeirra með gengdarlausum kostnaði af því að maðurinn var svo ósvífin að veikjast af krabbameini.

Á sama tíma og öryrkjar ná ekki endum saman og svipta sig lífi vegna þess að þeir sjá ekki fram á neitt annað en dauðann.

Á sama tíma og eldri borgarar deyja úr hungri og vosbúð vegna nánasar eftirlauna sem í þau er hent, þrátt fyrir áratuga skattgreiðslu og uppbyggingu í þessu ágæta samfélagi.

Á sama tíma og spilling og viðbjóður grasserar og setur þjóðfélagið á hausinn og ekkert er gert til að sporna við gjörningnum.

Á sama tíma og allt þetta gerist er mál málanna að flytja brennivínsfrumvarp svo hægt sé að kaupa óþverrann um leið og mjólkina og hitt mál málanna er að hægt verði að baða sig í skýjum reyk vindlinga.

Ég gekk eftir fallegri götu í Coimbra í fyrradag. Á móti mér komu 2 ungir glæsilegir menn, klæddir svörtu frá toppi til táar, í vel pússuðum skóm, gljáandi hárið brosti við sólinni og flottar möppurnar hvíldu sælar undir handarkrikanum.

Svona sjón gleður hjarta mitt og margir slíkir eru á ferð á þessum tíma, þetta eru háskólaborgararnir á leið í lokaprófin.

Sólin skein og allt var svo fallegt.

Ungu mennirnir hurfu allt í einu í heimatilbúið ský. Fallega hárið og gljáandi skórnir ásamt svörtum skikkjunum hurfu í eitthvað óhugnanlegt ský sem lyktaði af einhverju sem ég veit ekki hvernig á að lýsa.

Hvað var þetta ský?

Hvaðan kom það?

Jú, þetta var "skýja sígarettan" sem þeir reyktu og blésu frá sér í óða önn.

Þetta var dæmi um afleiðingar hinnar óstjórnlegu gleði alþingismanna sem halda nú ekki vatni yfir nýju frumvarpi sem á að lögleiða nýju sígaretturnar á Íslandi.

Ég sagði ekkert við þessa ungu fallegu stráka. Ég passaði mig að eyðileggja ekki skýja sæluna fyrir þeim. Þetta kom mér ekki svo mikið við, eða þannig.

Hryllingsmyndin sem ég hef séð af þessum nýju "dásamlegu" skýja vindlingum eru þær sem ég hef horft á í sjónvarpi frá breskum pöbbum þar sem fólk situr á móti hvort öðru, hulið þessum undarlega hjúp, og hefur ekki hugmynd um hvernig viðmælandinn lítur út.

Fyrirbærið er nýtt og ekki enn komið í ljós hvort alvarlegar aukaverkanir fylgja. Það skiptir ekki máli fyrir hina nýju þingmenn Íslands. Skýið skal lögleitt og ekkert með það.

Mikið vildi ég að blessað fólkið, sem veiktist af alsheimer um leið og það opnaði fyrsta launaumslagið sitt, færi nú að vakna og líta í kringum sig.

Mikið vildi ég að fólkið sem hélt að þeir sem eru komnir á eftirlaun séu "á sveit", færi að líta í kringum sig og aðeins út fyrir níðþröngar buxurnar og enn þrengri ramma sem þau hafa vafið utan um sig til þess að þurfa ekki að sjá ungu hjónin sem eru að verða gjaldþrota af því að maðurinn var svo ósvífin að fá ólæknandi krabbamein og þau vaða ekki í peningum og sjá ekki fram á að geta greitt lækniskostnaðinn eða lyfin. Þetta unga par er ekki með laun alþingismanna eða sposlur þeirra sem sitja á hinu háa alþingi.

Er einhver von til þess að þingmenn vakni?

Ég veit það ekki, kannski er bara best að allir setjist að í "fátæki" gildrunni og veslist upp smátt og smátt og helst hratt, til þess að gróðapungar Íslands geti haldið uppteknum hætti og selt landið öðrum gróðapungum sem er hjartanlega sama um einhverja örfáa sem kalla sig íslendinga.

Alþingi styður gróðapungana, það fer ekkert á milli mála. Verkin þar tala og hrópa hátt og snjallt í takt við þá sem gefa skít í almúgann og telja "skýja sígarettur" mikilvægari en heilsugæsla fyrir alla og laun eftirlaunaþega og öryrkja sem koma þeim  nákvæmlega ekkert við.

Vonandi fá alþingismenn aldrei krabbamein.

Vonandi verða alþingismenn aldrei öryrkjar.

Vonandi verða alþingismenn aldrei gamlir!

Ó, auðvitað skiptir ekki máli fyrir alþingismenn hvort þeir verða gamlir eða ekki, þeir þurfa aldrei að kvíða morgundeginum því eftirlaun þeirra eru í samræmi við allt annað sem þeir fá á silfurfati þegar svangur almúginn setur kross við nafnið þeirra í kjörklefanum.

Hulda Björnsdóttir

 


Bloggfærslur 1. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband