Meðaltöl eru hættuleg - þau segja enga sögu en eru vopn í höndum misvitra stjórnmálamanna

2.september 2017

Þorsteinn Víglundsson er yfir sig hrifinn af meðaltölum og það eru fleiri.

Meðaltöl eru svo undur fögur þegar þarf að troða upp í mótmælaseggi sem reyna að telja ráðherra trú um að það séu ekki allir sem lifi í alsnægtum á Íslandi.

Ráðherrann birtir súlurit og þegar gerð er athugasemd við röksemdafærslu hans segir hann að þetta séu tölur sem taka megi mark á.

Rúmlega 700 þúsund eða þar um bil eru samkvæmt ráðherra meðallaun á Íslandi. (Ef þessi tala er ekki rétt þá vinsamlega leiðréttið mig og ég breyti henni)

Nú ætla ég aðeins að færa mig úr stað og tala um meðaltöl í Portúgal.

Það birtist í merku blaði ekki fyrir mörgum dögum að eftirlaun í Portúgal væru 780 evrur á mánuði.

Ég hrökk við því ég þekki margar fjölskyldur sem eiga afa og ömmu eða foreldra sem eru komin á eftirlaun og þeirra upphæð er ekki nema tæpar 300 evrur á mánuði.

Ég fór á stúfana til þess að skoða málið og þá rakst ég auðvitað á þessi dásamlegu meðaltöl.

Ég hafði árið 2016 í tekjur rétt rúmlega 22 þúsund evrur vegna hins ótrúlega hagstæða gengis krónunnar. Þetta eru eftirlaun mín frá Íslandi.

Hér í landi, í Portúgal, eru nokkrir vellauðugir gaurar og kellur. Eitt dæmi um þann sem er inni í meðaltölum ellilífeyris fær 22 þúsund evrur Á MÁNUÐI í eftirlaun. Á MÁNUÐI, ekki á ári. Hann fær á mánuði jafn mikið og ég fékk á ári, í góðæris tíð gengis íslensku krónunnar.

Þessi ágæti maður var lögmaður og dómari. Það eru fleiri svona dæmi hérna.

Smá munur á því að vera með tæpar 300 evrur eða 22 þúsund evrur á mánuði, finnst ykkur ekki?

Svona eru allar meðaltals tölur, þær segja engan sannleika. Þær eru bara tæki fyrir stjórnmálamenn til þess að halda niðri kjörum þeirra sem minna hafa og hægt er að kaupa með gylliboðum fyrir kosningar. Gylliboðum sem eru svo svikin jafnvel á kjördag. Hvernig var þetta aftur með hækkun þingheims á Íslandi eftir síðustu kosningar? Komu þær ekki á kjördag?

Þorstein Víglundsson getur stært sig af fallegum meðaltölum og súluritum. Hann sefur líklega vel á nóttunni sæll og glaður með meðaltölin.

Getur það verið að almenningur láti blekkjast enn eina ferðina, næst þegar kosið verður og krossi við Viðhald Sjálfstæðisflokksins?

Virkilega?

Má ég minna á fagurt bréf formanns Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar árið 2013 þar sem gylliboðin og helgislepjan lak úr hverju orði til handa eftirlaunaþegum.

Má ég minna á að íslendingar sitja uppi með handónýta ríkisstjórn eigin hagsmuna sem er hjartanlega sama um þá sem minna hafa.

Og má ég líka minna á að stjórnarandstaðan er svo dásamlega steinsofandi að ekkert, ég segi og meina EKKERT, virðist geta ýtt henni á flot.

Litli gulur er að rústa heilbrigðiskerfinu og andstaðan er núll og nix.

Afsökunin er þessi: Alþingi stjórnar engu. Þeir sem ráða eru í ráðuneytunum.

Það er löngu kominn tími til þess að breyta stjórnarháttum á litlu eyjunni í norðri.

Er það ekki undarlegt að yfir 60 manns sé haldið uppi á þingfararkaupi og ráðherralaunum og öllum bitlingunum í landi þar sem búa 330 þúsund manns?

Það ætti að taka smart símana af öllu liðinu þegar það stígur inn fyrir dyr þinghússins. Það fer fátt eins í taugarnar á mér og að horfa á Panamaprinsinn grúfa sig yfir snjallinn á meðan verið er að belgja sig úr ræðustól og spyrja hann alvarlegra spurninga.

Það fer líka í taugarnar á mér að sjá belginginn og illskuna úr hinum virðulega ræðustól.

Þegar ekki er einu sinni hægt að sýna kurteisi á hinu háa Alþingi er ekki hægt að ætlast til sanngirni og umhyggju fyrir þeim sem minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi.

Ég ætti líklega að hætta að láta framkomu þingmanna og ráðherra fara í taugarnar á mér. Þeim er ekki viðbjargandi en ég gæti hugsanlega komist hjá taugaáfalli af verstu gerð. Meðaltöl benda eindregið til þess.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband