Við verðum að láta í okkur heyra !

22.ágúst 2017

Ellert formaður FEB er búinn að selja sál sína.

Við því getum við ekkert gert annað en að láta í okkur heyra.

Við, hinn almenni borgari, sem látum okkur málefni minnihlutahópa í þjóðfélaginu koma okkur við verðum að láta í okkur heyra. Það er borgaraleg skylda okkar.

Nú logar allt í Flokki fólksins, flokki sem kannski voru bundnar vonir við að væri öðruvísi. Ég veit ekkert hvað er rétt og hvað ekki í því máli en finnst þó ömurlegt að þeir sem telja sig vera að vinna að velferð eftirlaunaþega og öryrkja skuli dag eftir dag standa í illdeilum á Facebook. Þeir sem ekki eru ánægðir í flokknum ættu að sjá sóma sinn í því að halda umræðunni innan flokks en ekki reka óhróðurs stefnu á Facebook.

Flokkur fólksins kemur mér ekkert við, ég er ekki kjósandi á Íslandi. Ég er ekki í hópi eldri borgara sem lepja dauðann úr skel. Málefni þessa hóps kemur mér samt við. Ég tel það skildu mína að opna munninn og berjast fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja. Uppeldi mitt og líf væri til lítils ef ég sæti og nyti þess sem ég hef og gæfi lítið fyrir hina. Ég var heppin og tók mín mál í mínar hendur fyrir mörgum árum. Ég hafði tækifæri og kjark til þess. Hefði ég verið á Íslandi núna, væri ég að öllum líkindum í hópi fólksins sem hefur ekki í sig og á. Þess vegna meðal annars kemur mér þetta mál við.

Alþingi kemur saman fljótlega. Þá er tækifæri til þess að breyta lögum um almannatryggingar og þarf ekki annað en reglugerð til.

Það þarf ekki að stofna enn eina nefndina.

Það er nú þegar til nefndarálit frá September 2016 þar sem segir meðal annars í kafla 1.

Lífeyriskerfi almannatrygginga er einfaldað til muna með því að sameina grunnlífeyri, tekjutryggingu og framfærslu uppbót í einn lífeyri.

Bundinn er endir á að skerðingar geti verið 100% sem nefnt hefur verið króna á móti krónu. Þess í stað er lagt til að skerðingar verði aldrei meiri en 45% hvort sem um er að ræða lífeyrissjóðstekjur, atvinnutekjur eða fjármagnstekjur og að einstaklingurinn haldi alltaf eftir 55% af tekjum sínum.

Grái herinn er gagnslaus.

FEB er gagnslaust.

LEB er gagnslaust með fyrrverandi formann FEB sem formann landssambandsins.

Hvað er þá hægt að gera?

Jú, hinn almenni eldri borgari og öryrki verða að láta í sér heyra. Nú er kominn tími til þess að hafa hátt. Það er kominn tími til þess að hafa samband við fjölmiðla og upplýsa þá um stöðu þessara hópa. Fjölmiðlar þegja þunnu hljóði vegna þess að við þegjum.

Fjölmiðlar hafa ekki hugmynd um örbirgð eldri borgara. Ég segi þetta því ég neita að trúa því að fréttamönnum sé sama. Það getur ekki verið.

Ef þið þekkið fjölmiðlamenn talið þá við þá. Segið þeim frá. Fáið þá til að taka viðtöl og myndir af þeim sem virkilega eru í neyð. Fáið þá til þess að tala um svik Bjarna Ben og bréfið sem hann sendi eldri borgurum árið 2013. Hjartnæmt bréf sem er ekkert annað en fagurgali fyrir kosningar.

Rísið upp og framkvæmið.

Ég vildi miklu heldur vera að nota tíma minn, sem er að renna sitt skeið, í að skrifa bók um skemmtilegt líf. Ég get ekki annað en haldið áfram að tala eins og rödd í eyðimörkinni, en þannig finnst mér ég stundum vera að hrópa.

Hættið skítkasti í hvert annað og niðurrifi innan pólitískra flokka. Haldiði skítkastinu innan veggja flokkanna og látið rödd ykkar heyrast um málefni sem skipta máli.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband