Sunnudagshugleiðing og ekkert annað.

24.september 2017

Kæru lesendur

það er ekki hægt að hætta að setja eitthvað hér inn jafnvel þó ég taki ekki þátt í bullinu sem tröllríður þjóðinni þessa dagana með loforðum um gull og græna skóga.

Hætti ég að blogga missi ég fylgisveina sem ég þarf á að halda eftir október svo hér kemur bara flott hugleiðing í tilefni dagsins.

Það er miður dagur hérna í Penela og sólin skín eins og enginn sé morgundagurinn. Ótrúlega fallegur haustdagur.

Í gær fór ég til Taveiro og horfði á fegurð haustsins renna framhjá mér meðfram þjóðveginum. Litirnir eru ótrúlegir. Vínviðurinn er rauður í öllum hugsanlegum tilbrigðum. Innan um og saman við eru þó litlu runnarnir sem voru bara sprotar vafðir flösku fyrir nokkrum mánuðum. Nú teygja þeir sig út fyrir skjólið og eru sumir allt upp í meters langir. Ja, ungviðið lætur ekki að sér hæða. Ég hef ekki séð neinn sprauta eitri á þessa nýju meðlimi og þau eru ekki skreytt með rauðum lit. Allavega ekki í bili.

Það er hátíð í dag hjá nágrannabæ mínum. Vínviðar klipping. Svo er öllu hvolft í stórar tunnur og stiginn villtur dans ofan á dýrðinni. Berfættar yngismeyjar á öllum aldri og flottir strákar dansa eins og enginn sé morgundagurinn. Stappa og stappa. Fyrir utan tunnurnar eru svo prúðbúnir hópar klæddir þjóðbúningum hvers bæjarfélags og alls konar félaga sem stíga örlítið þjóðlegri spor og allir þar í skóm enda hoppað á malbikaðri brautinni.

Ég nennti ekki að fara í geymið. Er búin að þrífa eins og vitfirringur í allan morgun og hringsnúa blómapottum og gljáfægja baðherbergið svo speglar eru óþarfir þar á næstunni. Vatn og edik þrifu gluggana sem eru ekkert smásmíði og síðan hellti ég úr garðkönnu yfir allt saman. Margar ferðir þar og óþarfi að fara í göngutúr þenna sunnudaginn. Nágrannarnir litu skelfingu lostnir upp til mín. Það er jú sunnudagur í kaþólsku landinu og maður þrífur ekki glugga að utan og djöflast í blómapottum. Það er allt í lagi að halda vöku fyrir útlendingnum þegar farið er í bað, ekki bara eitt heldur mörg, klukkan 2 um nóttina. Nei kaþólskan lætur ekki að sér hæða.

Líklega verða baðmotturnar mínar ekki orðnar þurrar þegar kvöldið skellur á svo þær verða að dúsa úti á snúru í nótt, en auðvitað innan við glervegg svo þær geta ekki verið að kvarta nein ósköp. Eins gott að ég falli ekki í yfirlið á steinflísarnar og brjóti eitthvað. Má ekki vera að því núna þar sem mánudagur er og ný vika að næsta leyti með öllu því sem svoleiðis fylgir.

Það eru hálfgerð vandræði hjá BRETAGREYJUNUM sem búa hérna í fínu húsunum sínum. Ríkisstjórnir okkar er nefnilega að láta sér detta í hug,í alvöru, að greyin gætu borgað skatta hjá okkur. Auðvitað algjör ósvífni en svona er þetta nú í Portúgalalandi.

Íslendings ræfillinn þarf að borga skatta, og er bara ánægð með það, en auðvitað er hún minna virði en hin háæruverðuga þjóð Bretar, sem eru nú reyndar að fara á hausinn held ég með brexitinu sínu þar sem að þjóðinni var logið til þess að hún kysi að fara burt.  Ég ætla ekkert að segja :Gott á ykkur! enda er ég svo ægilega kurteis eins og allir vita. 

Kellingin á neðri hæðinni í blokkinni minni kann ekki að loka útihurðinni. Hún er með 2 lása á innihurðinni sinni en skilur alltaf eftir opna útihurðina. Núna er farið að kólna og kuldinn læðist eins og draugur upp eftir veggnum og beint inn í stofu til mín. Svona kellingar eru gjörsamlega óþolandi.

Ég kyndi og kyndi og labba og labba niður stigann til þess að loka en allt kemur fyrir ekki. Næst þegar kellan fer út galopnar hún. Það er eitthvað einkennilegt við svona fólk, held ég.

Ekki er það ég sem er skrítin. Ó nei, ekki til að tala um.

Nú er ég byrjuð á afar áhugaverðum skrifum á WordPress. The outcast heitir hún og verður í mörgum köflum. Þar verður ekkert dregið undan. Allt upp á yfirborðið og margir gætu farið að skammast sín og skjálfa! Þetta er auðvitað skáldsaga en að baki hverjum skáldskap er alltaf einhver sannleikur. Og undrið er að sjálfsögðu á hinu ástkæra og ylhýra máli Ensku.

Með sunnudagskveðju til allra sem þetta lesa, hvort sem það eru vinir eða fó.

Hulda Björnsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband