Síðustu fréttir af eldunum í landinu mínu

18. júní 2017

Það brennur allt í kringum okkur þó eldar logi ekki innan þorpsins enn þá. Himinninn er svartur og dimmt inni sem að kvöldi um hávetur.

Fyrr í dag voru þrumur en ég sá ekki eldingar og því miður engin rigning.

Það logar í hverju bæjarfélagi hérna í miðju Portúgal. Eldurinn hefur þó ekki náð að mynda hring en er ekki langt frá því og búið að setja upp hjálpar miðstöðvar alls staðar og óskað eftir framlögum.

Þó svo að ekki séu greiddar háar upphæðir á ári tekur fólk til hendinni þegar eldarnir loga og kemur færandi hendi með vatn, ávexti og  orkustangir. Þetta er það sem helst er óskað eftir og slökkviliðsmennirnir geta borið með sér. Þeir eru örmagna en halda þó áfram.

Fréttaflutningur í erlendum fjölmiðlum er ótrúlega ónákvæmur og sumar stöðvar vita ekki hvar í veröldinni, eða í Portúgal, Pedrógao Grande er. Þar hefur orðið mest manntjón og er tala látinna núna 62. Verið er að kemba hús og allt umhverfi.

Boðuð hefur verið 3ja daga þjóðarsorg vegna atburðanna.

Andstæðurnar eru ótrúlegar. Þegar ég lít út um framhlið blokkarinnar skín sólin í gegnum reykinn en á bakhliðinni er allt svart.

Það virðist sem eldar logi núna í Miranda do Corvo og Espinahl.

Þjóðvegir hafa verið lokaðir og á sumum stöðum á fólk í raun ekki undankomuleið. Sums staðar eru allir vegir til og frá þorpunum lokaðir.

Sjónvarpið hérna er það áreiðanlegasta og eru þeir með beinar útsendingar og viðtöl við ráðamenn en hins vegar sýna þeir myndir af látnu fólki og brunnum bílum og er það mjög andstyggilegt og Portúgalarnir hafa verið að mótmæla þessum fréttaflutningi en ekkert hrífur æsifréttamennskuna.

Spánn og Frakkland hafa aðstoðað með því að senda flugvélar sem dreifa vatni yfir skógana. Það eru í raun allir sem vettlingi geta valdið að hjálpa.

Margir hafa misst hús sín og það kremur hjartað þegar maður sér fólkið standa og horfa varnarlaust á eldinn læsa klónum í heimili þeirra og örvæntingin er ólýsanleg.

Í fyrra var talað um að refsa brennuvörgunum og ekki sleppa þeim út.

Núna er talað um að elding hafi kveikt í.

Ég veit ekki hvort ég trúi skýringu forsætisráðherrans með eldinguna, en hitt veit ég að það væri nær að leggja fé til slökkvistöðvanna svo þær gætu fengið almennileg tæki til þess að vinna með. Skattpeningum okkar væri betur varið í það en margt annað. Að hugsa sér að í landi sem býr við skógarelda á hverju einasta sumri skuli þurfa að reka slökkvistöðvar fyrir smá aðstoð frá hinu opinbera en að mestu fyrir frjáls framlög. Þetta er svo ótrúlegt og gæti líklega ekki gerst víðar en í Portúgal.

Forsetinn kom til Pedrógao og talaði við fólkið og faðmaði það að sér. Hann virðist einlægur í samúð sinni og páfinn sendi samúðarkveðjur.

Nú er ekkert hægt að gera annað en vona að nóttin taki ekki fleiri mannslíf.

Þó að ég sé búin að búa hérna í rúm 6 ár og þetta sé árlegur viðburður venst þetta ekki. Mér líður alltaf jafn illa og að vita af vinum sínum með lífið í lúkunum og vita að þeir geta misst heimili sín eins og hendi sé veifað, er hrikalegt.

Ég talaði við þau sem búa í norður landinu og þar eru ekki eldar, ekki enn þá.

Samkvæmt veðurspá virðist öll þessi vika verða heit og ekki fyrr en á laugardag spá um að kólni niður í rúm 20 stig.

Ég held mig inni í þorpinu þar til á fimmtudag en þá þarf ég að fara upp á spítala til skrafs og ráðagerða, en þangað til er ekki ástæða til þess að vera að þvælast fyrir.

Núna er klukkan 18.56 og þegar ég lít út um gluggann á skrifstofunni minni er himinninn sem var svartur fyrir hálftíma farinn að loga. Ný grá reykský breiðast út og líklega er hringurinn að lokast. Þar sem virtist hafa tekist að ráða niðurlögum eldsins geisar hann á ný og flugvélagnýr þekur allt og rauðar eldtungur teygja sig í áttina til vélanna. Það er dýralíf í fjöllunum sem ég er að horfa á og allt verður lagt í rúst.

Við þurfum ekki hryðjuverk í Portúgal. Þau eru árviss og við höldum áfram að gróðursetja júcalyptus sem er besta fæði sem hægt er að hugsa sér fyrir hryllilegar eldtungurnar.

Hulda Björnsdóttir

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband