Fallegur dagur í gulu Portúgal

24.febrúar 2017

Dagurinn í dag hefur verið einstaklega fagur hér í miðju landinu. Sólin skein í morgun og þó nóttin hafi verið köld hlýnar um hádegi.

Eins og venjulega fór ég í gönguferð áður en sjúkraþjálfarinn á spítalanum hófst handa við að koma brotnum handlegg og öxl í samt horf.

Það var reyndar útskýrt fyrir mér á góðri portúgölsku í morgun að þegar glas brotnar og það er límt saman verður það aldrei alveg eins og fyrir brot.

Auðvitað eru þetta gild rök en ég vil verða jafn góð og áður. Það er markmiðið sem stefnt er að og ekkert minna og svo er hægt að hlæja að mér þegar ég öskra af sársauka. Ég er reyndar hætt að öskra og nú anda ég bara ótt og títt og allt gengur eins og í bestu lygasögu, eða þannig.

Á morgungöngunni, sem hefst 45 mínútum áður en píningin byrjar fer ég ótroðnar slóðir þessa dagana. Spítalinn er í Covoes og í stað þess að leggja bifreiðinni við hann hef ég fundið tré í 10 mínútna fjarlægð og legg þar.

Tréð er stórt og fallegt og passar upp á drossíuna mína þar til ég kem aftur og við höldum heim. Venjan hér í landi er að leggja eins nálægt ákvörðunarstað og hægt er. Holdarfar landans ber þess líka merki.

Unaður morgunsins er eiginlega ólýsanlegur. Fuglarnir sungu symfóníu dagsins og hænurnar tóku undir. Engir hundar geltu í dag en í gær tók einn þátt í óperunni.

Þegar ég ók að heiman voru verkamenn að slá gras og hreinsa veg kanta því vorið kemur bráðum og allt ilmaði eins og í himnaríki. Ég elska lyktina af nýslegnu grasi. Hún virkar á mig svo full af lífi.

Á undan mér ók risatrukkur. Þeir eru á ferðinni á morgnana og ég lenti í morgun á milli þriggja. Best er að loka fyrir óttann og halda sig eins langt frá og hægt er þegar þessir jötnar eru á ferð en í morgun var ég innilokuð. Sá sem var fremstur gæti hæglega hafa verið að leika sér með tölvuleik. Þeir gera það stundum bílstjórarnir og þá rása þeir eins og drukkinn maður eftir veginn og ég læt mér ekki detta í hug að fara á hlið við þá eða taka fram úr. Best að vera fyrir aftan.

Það er kominn vorfiðringur í bílstjórana, ekki bara trukkana, allir eru á harða spani og í gær hélt ég að læknabíll mundi drepa mig en með lægni tókst mér að smeygja mér út af veginum. Hrikalegt og mér dettur í hug, þegar þeir bruna af stað, litlir strákar í bílaleik.

Ég hef uppgötvað nýtt hverfi á morgungöngu minni því venjulega er maður ekki að gera sér hálf tíma ferð bara til þess að labba einhvers staðar rétt hjá spítala. Hverfið sem ég geng um er ótrúlega fallegt. Stór hús og litlir garðar þar sem hænur eru í einu og gagga á morgnana eins og ég veit ekki hvað.

Gatan er löng og liggur að mestu upp í móti svo þetta er ágætis líkamsrækt. Kaffistofa er við enda götunnar og væri hægt að skella sér þar inn og fá sér sæta köku og kaffi, morgunmatur portúgala er svona, en ég er búin að borða svo kaffistofan verður að bíða betri tíma en ég er forvitin að vita hvernig hún lítur út að innan. Að utan er hún fín.

Þó ég sé að labba sama mínútufjölda kemst ég lengra með hverjum deginum sem líður og uppgötva eitthvað nýtt á hverjum degi. Það er risastórt nýtískulegt hús við síðustu brekkuna sem ég fór í dag og hinum megin við götuna er gult hús sem byggt er í hefðbundnum stíl en rosalega stórt. Hvað búa eiginlega margar fjölskyldur í svona húsum? hugsaði ég í morgun.

Ég veit ekkert um íbúafjöldann en á mánudaginn kemst ég að því hvað er á bak við hæðina sem ég fór hér um bil upp á í dag. Ég skildi eftir smábút bara til að sjá ekki hvað tæki við. Eftirvæntingin ber mig áfram.

Risa stór tré, með heiðgulum blómum skreyta þessa leið mína og þau ilma nú ekki dónalega. Unaður úr hverju strái. Þar sem ég er að lýsa er aðeins norðar en Penela og við höfum ekki þennan gula lit í bænum eða þorpunum í kring en þegar komið er til Podentes, eða á leiðinni þangað eru nokkur á stangli. Kannski vaxa þessi gulu frekar á norðurslóðum!

Þar sem ég er bæði lappalöng og með langa handleggi tekur vinkona mín sem er portúgölsk 2 skref á meðan ég stika eitt. Erfitt getur verið að finna stað í sjúkraherberginu þar sem ég sveifla ekki handlegg á gesti og gangandi og eins gott að vera á verði. Þetta er svo sem ekkert en að vera með svona langa útlimi er ekki gott þegar ég þarf að kaupa mér föt. Annað hvort eru þau of ermastutt eða og stór. Ekkert þar á milli.

Það er hefð hér í landi að fara til læknis og vera voða veikur. Á heilsugæslustöðvunum er keppni um hver er veikastur og geta oft spunnist líflegar umræður í vælutón um það.

Ég er að komast á þá skoðun að svona sé þetta hjá einni sem er í þjálfun á sama tíma og ég. Hún hefur komið 40 sinnum í þjálfunina og gerir mikið úr því hvað erfitt sé að klæða sig og fylgist með áhorfendum. Handleggurinn á henni er enn stífur og þegar ég spurði hana hvort ekki hefði verið athugað hvort eitthvað væri ekki eins og ætti að vera fékk ég langa lýsingu og í kaupbæti að hún hefði komið til Íslandi og maturinn á landinu væri úldinn og ógeðslegur!

Ég sveifla mínum handlegg um allar trissur, auðvitað ekki alveg eins og ég vil en kemst þó eitt skref áfram eða kannski tvö í hvert sinni og kvarta ekki. Ég þarf ekki að sækja mér athygli með því að fara í veikinda keppni! Það er alveg nægilegt að heyra mig öskra og þegar vel liggur á mér og æfingarnar eru hundleiðinlegar syng ég eins og enginn sé morgundagurinn.

Ég er reyndar voða glöð þegar mér tekst að klæða mig í peysuna eða kjólinn án þess að virðast öll skökk og skæld en það er bara fyrir mig. Þetta er allt að koma og ég neita að taka þátt í keppni sem ég vinn auðveldlega. Það er ekkert fútt í því en mikið vildi ég að aumingja konan hætti þessu væli og færi að hreyfa sig því ég þori að éta hatt minn upp á að hún getur það.

Gult Portúgal, frábær félagsskapur með læknum, því það eru 2 læknar í hópnum, annar er gamall kall og hann talar auðvitað ekki við hvern sem er en hinn er ung kona og hún er til í spjall. Skondið að báðir læknarnir eru með vandræði í fótunum! Snéru sig.

Góð helgi framundan og ég hef afrekað að skrifa blogg þar sem ekki er minnst á stjórnmál á Íslandi eða eldri borgara. Ég flýti mér að hætta núna svo ég detti ekki í vitleysuna því af nægu er að taka.

Hulda Björnsdóttir

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband